Búið er að höfða dómsmál fyrir dómstól í New York þar sem krafist er viðurkenningar á því að líta beri á fjóra simpansa, sem eru í haldi, sem persónur að lögum. Fallist dómstólinn á kröfuna verður að sleppa öpunum úr haldi.
Það er samtök sem berjast fyrir réttindum dýra sem höfða málið. Málareksturinn byggir á þeirri forsendu að simpansarnir eigi að njóta sömu réttinda og hver önnur persóna. Dómstóllinn þarf því að svara þeirri spurningu hvort líta beri á simpansa sem persóna að lögum.
Málið er höfða fyrir hönd simpansanna Tommy sem er 26 ára og er í búri í Gloversville í New York, Kiko, sem er 26 ára simpansi og fyrrum skemmtikraftur, en hann býr núna í búri og er í einkaeign og Herkúles og Leó sem eru tveir ungir simpansar, en þeir dvelja á rannsóknarstöð þar sem þeir eru notaðir til rannsókna.
„Það er ekki langt síðan fólk leit almennt svo á að þrælar ættu ekki að njóta persónuréttinda heldur væru þeir lögleg eign eigenda sinna,“ segir Steven M. Wise, stofnandi samtakanna Nonhuman Rights Project í samtali við CNN. Hann segir tímabært að stíga næsta skref og viðurkenna að þessi dýr geti ekki haldið áfram að vera skilgreind eign manna.
Joyce Tischler, félagi í samtökunum Animal Legal Defense Fund, segir að sá sem er persóna þurfi ekki endilega að vera maður. Hún bendir á að fyrirtæki séu með kennitölu og njóti réttinda. Það skipti ekki máli í þessu sambandi þó simpansarnir skilji ekki dómsmálið sem höfðað er fyrir hönd þeirra. Lítil börn skilji ekki dómsmál, en þau geti átt aðild að dómsmáli, t.d. þegar brotið er á rétti þeirra vegna ofbeldis inn á heimilum.
Samtökin Nonhuman Rights Project stefna að því að höfða fleiri dómsmál, m.a. til að verja réttindi fíla, höfrunga og hvala.