Karlmaður á þrítugsaldri lést þegar hann stökk fram af sviði á harðkjarnatónleikum í Sviss í síðustu viku. Maðurinn ætlaði að láta tónleikagesti bera sig um salinn en féll í jörðina þegar enginn greip hann. Í fyrstu virtist hann ekki hafa slasast alvarlega en annað kom í ljós.
Maðurinn var gestur á tónlistarhátíð í svissneska bænum Solothurn en hátíðin er tileinkuð harðkjarnatónlist. Hann ákvað að henda sér fram af sviði á einum tónleikum hátíðarinnar en með fyrrgreindum afleiðingum. Maðurinn stóð raunar upp og gekk á brott en öryggisverðir fylgdu honum eftir og töldu hann á að kíkja á slysadeild til öryggis.
Lögreglu var tilkynnt slysið daginn eftir, þegar ástand mannsins versnaði mikið og hann var fluttur á annað sjúkrahús. Þar lést hann af sárum sínum á föstudag. Lát hans hefur verið skráð sem slys.