Japanskt tónskáld, sem hefur oft verið líkt við Ludwig van Beethoven, hefur viðurkennt að hafa fengið annað tónskáld til þess að semja helstu verk sín. Málið hefur vakið mikla athygli í Japan enda tónskáldið eitt það virtasta þar í landi og víðar.
Mamoru Samuragochi, sem er fimmtugur að aldri, skaut upp á stjörnuhimininn um miðjan tíunda áratuginn með klassískum tónverkum sem hafa meðal annars verið notuð í tölvuleikjum. Samuragochi, sem missti heyrnina að fullu 35 ára, lét það ekki trufla sig við tónsmíðarnar og samdi meðal annars Symphony No.1, Hiroshima sem er óður til þeirra sem létust er kjarnorkusprengju var varpað á borgina af Bandaríkjamönnum árið 1945.
Árið 2001 birti Time tímaritið viðtal við hann og kallaði hann Beethoven á stafrænni öld.
Samuragochi sagði í viðtalinu að hann hlustaði á sjálfan sig og ef þú treystir á þinn innri hljóm skapaðir þú eitthvað einlægt. Þetta væri það sama og samskipti sem kæmu beint frá hjartanu. „Það að missa heyrnina var guðsgjöf,“ segir Samuragochi í viðtalinu við Time.
Í mars í fyrra birti japanska ríkissjónvarpið NHK heimildarmynd um hann þar sem fylgst var með honum á ferðalagi um hamfarasvæðin í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar 2011.