Síðasta bréfið sem vitað er til að hafi verið skrifað um borð í farþegaskipinu Titanic í jómfrúarferð skipsins árið 1912 var selt á uppboði í Bretlandi í dag fyrir 119 þúsund pund. Bréfið var skrifað af Esther Hart sem ferðaðist á öðru farrými Titanic og er dagsett sama dag og skipið rakst á ísjaka í Norður-Atlantshafi og sökk í kjölfarið. Fram kemur í frétt AFP að kaupandinn sé óþekktur.
Rúmlega 1.500 manns létu lífið þegar Titanic fórst. Til stóð að bréfið færi með skipinu aftur til Bretlands og yrði afhent móður Harts sem bjó þar. Þegar Titanic fórst var það á leið til Bandaríkjanna. Hart og dóttir hennar Eva komust um borð í björgunarbát og var síðan bjargað af farþegaskipinu Carpathia. Eiginmaður hennar fórst hins vegar með Titanic. Bréfið fannst í vasanum á frakka hans sem Hart hafði tekið með sér í björgunarbátinn.
Hart lýsir því meðal annars í bréfinu hvernig veltingurinn á Titanic fari illa í hana og að þó gert sé ráð fyrir því skipið komi til New York í Bandaríkjunum að kvöldi næsta þriðjudags verði það í raun á miðvikudagsmorguninn.