Bavíanar sátu um hóp þingmanna í Úganda í Afríku og töfðu för þeirra á fund með tóbaksbændum í norðurhluta landsins. Þingmennirnir eru í heilbrigðismálanefnd þingsins og voru að fara að ræða nýtt frumvarp sem bannar tóbaksframleiðendum að eiga í beinum samskiptum við bændur sem rækta tóbak. Um umdeilt þingmannafrumvarp er að ræða.
Þingmennirnir höfðu stoppað á Karuma-brúnni fyrir hópmyndatöku á leið sinni til Lango í Kole-héraði er bavíanarnir streymdu að og komust þingmennirnir hvergi. Bavíanar eru nokkuð ágengir, þeir eru vanir því að njóta góðs af því þegar ferðamenn stoppa á brúnni til að taka myndir. Þingmennirnir losnuðu ekki úr „umsátrinu“ fyrr en þeir gáfu bavíönunum af nesti sínu, banana og fleira góðgæti, segir í frétt New Vision.