Kynlífsleikföng fóru á flug í ástralskri verslun sem sérhæfir sig í sölu á hjálpartækjum ástarlífsins er verslunarstjórinn reyndi að stöðva innbrotsþjóf sem hugðist láta greipar sópa í versluninni um sl. helgi. Auk þess að verjast með kynlífshjálpartækjum var þjófurinn mjög sérkennilega til fara.
Þjófurinn komst inn í verslunina, sem er í borginni Brisbane, í gegnum þakglugga aðfararnótt laugardags en við það fór öryggiskerfi verslunarinnar í gagn.
Lögreglan segir að þjófurinn hafi verið búinn að grípa nokkra muni úr versluninni er verslunarstjórinn kom að honum. Þjófurinn brást við með að kasta kynlífsleikföngum í hann og hlaupa síðan út sömu leið og hann kom inn.
Þjófurinn komst hins vegar ekki langt því lögreglumenn biðu við stiga sem þjófurinn fór niður til að komast aftur út á götu.
Ástralskir fjölmiðlar greina frá því að þjófurinn hafi verið með hárkollu, í kjól og í buxum sem á vantaði klofið. Hann hefur verið ákærður fyrir innbrot og fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni.
„Það má vissulega sjá spaugilegu hliðina á þessu máli,“ segir verslunarstjórinn Fiona Coldrick í samtali við dagblaðið The Australian. „Múnderingin á honum var vissulega spaugileg,“ bætti hún við.
Þetta er í annað sinn á viku sem brotist er inn í verslum sem selur kynlífsleikföng í Ástralíu.
Á fimmtudaginn náði annar þjófur að brjóta sér leið í gegnum þakgluggga í slíkri verslun í Cairns. Hann komst undan með svokallaðan „Fanstasy Fetish“ pakka, en hann inniheldur m.a. hnakk. Maðurinn var handtekinn skömmu seinna og mætti fyrir dómara sl. föstudag.