Jennifer Williams brá heldur betur í brún þegar hún skoðaði Twitter-aðgang sinn í vikunni. Eftir að hún sagði frá því á Twitter að hún hefði gerst múslimi eftir að hafa lesið Kóraninn, fóru mörg þúsund manns að fylgja henni á samskiptamiðlinum. Þá hafa margir sent henni bónorð, meðal annars nokkrir liðsmenn skæruliðahreyfingarinnar ISIS.
Williams skrifaði pistil á heimasíðu tímaritsins New Republic þar sem hún segir frá ákvörðuninni um að skipta um trú. Hún er menntaður stjórnmálafræðingur og þekkir vel málefni Mið-Austurlanda. Til þess að kynnast menningu landanna enn betur ákvað hún að lesa Kóraninn. Hún heillaðist svo mikið af ritinu að hún ákvað að gerast múslimi.
„Ef þú mætir mér úti á götu, myndir þú aldrei halda að ég væri múslimi. Ég er ljóshærð og bláeygð og ég geng ekki í hijab. Ég er með mörg húðflúr og ólst upp á trúuðu heimili í Texas,“ skrifar Williams.
Hún segist leið á því að þurfa að afsaka gjörðir hryðjuverkamanna, aðeins vegna þess að hún sé múslimi. Hún, ásamt fleiri múslimum, ákvað að svara ásökununum með gríni á Twitter. Múslimar um allan heim hafa undanfarið skrifað inn skemmtilegar afsakanir á öllu því sem miður fer í heiminum með kassamerkinu #MuslimApologies.
„Daginn eftir að ég skrifaði ummælin á Twitter vaknaði ég með marga nýja fylgjendur á Twitter. Sumir þeirra voru bara eðlilegir múslimar en aðrir voru með mynd af sér, vopnuðum sverðum og byssum,“ skrifar Williams og segist hafa fengið fjölda bónorða, meðal annars frá ISIS-liðum.
Sjá Twitter-síðu Williams hér.