Líf á öðrum hnöttum?

Kallistó, fimmta tungl Júpíters. NASA sendi myndina frá sér í …
Kallistó, fimmta tungl Júpíters. NASA sendi myndina frá sér í gær. Ný gögn benda til úthafa neðanjarðar á tunglinu. Reuters

Ný gögn, sem eru afrakstur geimfarsins Galileo, benda til að tær úthöf liggi á milli ísskorpna tveggja tungla Júpíters, stærstu reikistjörnu sólkerfisins, þeirrar fimmtu frá sólu. Þykja gögnin auka möguleika á lífi á öðrum hnöttum.

Vísindamenn segja að geimfarið Galileo, sem verið hefur á sporbaug umhverfis Júpíter frá 1995, hafi náð gögnum sem bendi til þess að Evrópa og Kallistó, tvö af tunglum reikistjörnunnar, valdi óróleika við segulsvið hennar. Krishan Khurana og starfsbræður hans við Kaliforníuháskóla í Los Angeles sögðu, í grein sem birtist í hinu virta vísindariti Nature í gær, að hvorugt tunglið byggi yfir eigin segulsviði og því væri fyrirbrigðið best skýrt með úthöfunum og hinum salta vökva þeirra. Vísindamennirnir telja að einhvers konar líf geti eða hafi verið við lýði á þessu nýja og áður óþekkta svæði. "Á þessum svæðum er að finna frumforsendur til að líf fái þrifist," segir Fritz Neubauer, stjörnufræðingur við Kölnarháskóla eftir að tíðindin voru gerð opinber. Neubauer ritar einnig grein í Nature og þar tekur hann undir kenningu Khurana og félaga, að hin söltu höf séu líklegasta skýringin, og að gögn frá Galileo bendi til neðansjávarhafa á tunglunum Evrópu og Kallistó. Hið fyrra hafi ekki þurft að koma svo mjög á óvart, en hitt, að slíkt finnist á Kallistó, séu stórtíðindi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka