Á fimmtudag mun fulltrúadeild Bandaríkjaþings taka til umfjöllunar hugsanlega ákæru til embættismissis á hendur Bill Clinton, forseta. Ný skoðanakönnun á vegum New York Times og CBS-fréttastofunnar leiðir í ljós að 64% Bandaríkjamanna eru enn andvígir því að fulltrúar þeirra á þingi greiði ákæru atkvæði sitt. 24% styðja ákæru en 37% stinga upp á málamiðlun milli þingsins og forsetans. Í gær kynntu ABC-fréttastofan og Washington Post svipaðar niðurstöður úr aðskildri könnun. Þar kom þó í ljós að meirihluti kjósenda heimtar afsögn forsetans, verði hann ákærður á annað borð.