Ný rannsókn sýnir að fiskar finna til

Ný bresk vísindarannsókn bendir til þess að fiskar finni til sársauka. Tilraunir sem gerðar voru með því að sprauta býflugnaeitri og edikssýru í varir regnbogasilunga benda til þess að fiskar finni sársauka og sýni streitueinkenni. Rannsóknin var gerð á vegum Edinborgarháskóla og Roslinstofnunarinnar, sömu stofnunar og klónaði ána Dolly og voru niðurstöðurnar birtar í dag á vegum konunglegu vísindastofnunarinnar í Lundúnum.

Alþjóðlegu dýraverndarsamtökin PETA hafa fagnað þessum niðurstöðum. Dawn Carr formaður samtakanna segir að þótt samtökin séu ekki ánægð með að dýr líði kvalir í tilraunum vonist þau til að þegar fólk sjái þessar niðurstöður muni það hugsa sig tvisvar um áður en það fer á stangveiðar næst.

En breska stangveiðifélagið sagði að niðurstaðan kæmi á óvart og væri í andstöðu við niðurstöður rannsókna James Roses prófessors í Wyomingháskóla sem sýndu að ekki væru til staðar heilastöðvar í fiskum sem gerði þeim kleift að finna sársauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka