Skýrsla um 11. september: Listi birtur yfir 10 tækifæri sem fóru forgörðum fyrir árásirnar

Í skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar um hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001, sem gerð verður opinber á fimmtudag, verður birtur listi yfir 10 tækifæri sem fóru forgörðum hjá stjórn Bill Clintons, fyrrum Bandaríkjaforseta og George W. Bush, forseta, í tengslum við árásirnar. Hefðu þessi tækifæri verið nýtt hefðu þau getað komið upp um ráðabrugg hryðjuverkamannanna og náð að koma áætlunum þeirra af sporinu.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem er 600 síður að lengd, er því hins vegar ekki haldið fram að hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásirnar, að því er embættismenn sem lesið hafa skýrsluna sögðu við blaðið Washington Post.

Í skýrslunni eru nefnd sex tækifæri til aðgerða sem stjórnir Clintons og Bush nýttu ekki, sem hugsanlega hefðu getað komið upp um fyrirætlan hryðjuverkamannanna að ráðast á New York og Washington. Um 3.000 manns létu lífið í árásunum.

Meðal annars er rætt um að bandarísku leyniþjónustunni, CIA, hafi gert þau mistök að setja ekki tvo af flugmönnunum 19, sem flugu farþegavélunum fjórum, á lista yfir hugsanlega hryðjuverkamenn. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, er gagnrýnd fyrir það hvernig hún stóð að handtöku Zacarias Moussaoui í ágúst 2001, en hann er sakaður um aðild að skipulagningu árásanna.

Einnig er í skýrslunni rætt um allnokkrar misheppnaðar tilraunir til að ráða Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, af dögum.

Þar er viðurkennt að mörg tækifæranna væru þess eðlis að erfitt hefði verið að ná þeim og önnur hefðu krafist töluverðrar heppni í þróun atburða, hefðu þau átt að nást.

Leggja til umbætur á starfsemi bandarískra leyniþjónusta

Skýrsluhöfundar leggja til að verulegar umbætur verði gerðar á starfsemi bandarískra leyniþjónusta og að stofnað verði sérstakt ráðuneyti sem fer með alla leynistarfsemi bandaríska ríkisins.

Í skýrslunni er þess jafnframt getið að al-Qaeda hafi meiri tengsl við Íran og skæruliða Hizbollah, en við Saddam Hussein, fyrrum einræðisherra í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka