Kennari sakfelldur fyrir barnanauðgun laus úr fangelsi

Mary Kay Letourneau fyrir rétti í febrúar 1998.
Mary Kay Letourneau fyrir rétti í febrúar 1998. AP

Bandaríska konan Mary Kay Letourneau, sem var sakfelld fyrir að eiga kynmök við nemanda sinn þegar hún kenndi í barnaskóla, er að losna úr fangelsi í Seattle um þessar mundir. Hún hefur ekkert tjáð sig um það hvort hún hyggist reyna að ná sambandi við fyrrverandi nemanda sinn og föður tveggja barna sinna.

Ráðgert er að Letourneau verði látin laus í dag úr kvennafangelsi skammt frá Gig Harbor þar sem hún hefur afplánað sjö ára dóm fyrir barnanauðgun. Skilyrði fyrir lausn Letourneau, 42 ára, eru þau að hún hafi ekki samband við fyrrverandi nemanda sinn, Vili Fualaau, sem nú er orðinn 21 árs en var tólf ára þegar náin kynni þeirra hófust. Fulaau getur farið fram á það við dómara að bannið við því að hafa samband verði fellt úr gildi en hann hefur ekki gert það.

„Ég leyfi mér ekki að hugsa um það að vera með honum,“ sagði Letourneau í samtali við sjónvarpsstöð fyrr í vikunni. „Við áttum fallegt samband og ég met það fyrir það sem það var.“

Letourneau var 34 ára kennari í grunnskóla í úthverfi Seattle og gift fjögurra barna móðir árið 1996 þegar vinátta hennar og Fualaau, sem þá var 12 ára, breyttist í daður og síðan kynlíf. Þegar hún var handtekin 1997 gekk hún með dóttur Fualaau. Hún var dæmd í hálfsárs fangelsi fyrir barnanauðgun og fyrirskipað að halda sig fjarri Fualaau.

Hún stóðst ekki mátið og mánuði eftir að hún var látin laus var hún staðin að verki þar sem hún átti mök við Fualaau í bíl sínum. Þar með hafði hún rofið skilorð. Hún var dæmd í sjö og hálfs árs fangelsi þar sem hún ól aðra dóttur Fualaaus.

Fualaau lýsti því yfir í tímaritsviðtali nýverið að hann hefði hug á að taka aftur saman við Letourneau. Hann er atvinnulaus og móðir hans elur upp börn hans og Letourneau.

Vili Fualaau fyrir rétti í mars 2002 er hann krafðist …
Vili Fualaau fyrir rétti í mars 2002 er hann krafðist einnar milljónar dala í skaðabætur frá lögreglu og skólayfirvöldum fyrir að vernda sig ekki fyrir kennara sínum. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert