Bandarísk stjórnvöld hafa vísað þeim ásökunum á bug að föngum í Guantanamo fangelsinu á Kúbu séu misþyrmt. Bandaríkjamenn halda því fram að þær yfirheyrslur sem fara fram í fangelsinu lúti bandarískum lögum.
„Það er mikilvægt að menn átti sig á því að allt það sem tengist yfirheyrslum á föngum er vel innan marka bandarískra laga,“ sagði talsmaður Hvíta hússins, Tom Snow, við blaðamenn í dag.
Hann lét þessi ummæli falla sama dag og eftirlitsnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hefur það að markmiði að berjast gegn pyntingum kallaði eftir því að bandarísk yfirvöld lokuðu fangabúðunum í Guantanamo. Þá var einnig kallað eftir því að leynifangelsum Bandaríkjanna vítt og breitt um heiminn yrði jafnframt lokað.
Fram kemur í skýrslu sem nefndin sendi frá sér að Bandaríkin verði að hætta misþyrmingum á meintum hryðjuverkamönnum og að þau verði að draga úr því að flytja fanga til landa þar sem þeir eiga í hættu á því að verða fyrir líkamlegu eða andlegu ofbeldi.
Nefndin, sem samanstendur af 10 lögfróðum mönnum, segir að loka ætti Guantanamo fangabúðunum og að fangarnir ættu annað hvort vera sleppt lausum eða það að þeir ættu að mæta fyrir rétt.
Snow lagði áherslu á það í orðum sínum að komið væri mannúðlega fram við fangana. Hann minntist hinsvegar ekkert á það atvik sem átti sér stað í gær þegar til átaka kom á milli fanga og fangavarða í Guantanamo.
„Allir fangarnir fá þrjár máltíðir á dag sem er í samræmi við lög múslíma.“
Hann bætti því við að gætt væri að mataræði þeirra, þeir fengju nóg vatn, aðgang að heilsugæslu, fatnað, skýli, kæmust í sturtu, fengju sápur og aðrar hreinlætisvörur. Þá fengju þeir einnig tækifæri til þess að iðka trú sína. Þeir fengju eintak af Kóraninum og mottur til þess að biðja á.