Benedikt páfi XVI hvatti í dag rómversk-kaþólska trúbræður sína að hafna þeim sem „falsa orð Guðs. Var þetta í morgun túlkað þannig, að þarna hafi páfi verið að vísa til deilunnar sem hefur staðið að undanförnu um skáldsöguna og kvikmyndina Da Vinci lykilinn.
Páfi söng útimessu í miðborg Varsjár í dag þar sem gríðarlegur fjöldi var viðstaddur, en í dag er annar dagur í fjögurra daga heimsókn páfa til Póllands. Þar nýtti hann tækifærið til þess að vara við þeirri freistingu að snúa út úr þeim sannleika sem sé að finna í Biblíunni.
„Líkt á undangengnum öldum þá er til fólk eða hópar, sem leitast við að falsa orð Guðs og fjarlægja úr guðspjallinu þann sannleika sem, að þeirra mati, er of óþægilegur fyrir nútímamanninn,“ sagði hann.
„Þeir reyna að gefa til kynna að allt sé afstætt, jafnvel að sannleikur trúarinnar þurfi að reiða sig á sögulegar aðstæður og mat manna. En kirkjan getur ekki þaggað niður í sannleika trúarinnar [...] Allir kristnir menn eru knúnir til þess að standa frammi fyrir sinni eigin sannfæringu að eilífu samfara kenningum Guðspjallsins og þeir verða að vera trúir orði Krists, jafnvel þegar það er krefjandi og torskilið.“
Yfir 220.000 pílagrímar hlustuðu á orð páfa í úrhellis rigningu á Pilsudski torgi. Páfi sagði jafnframt, að fólk megi ekki láta hið afstæða freista sín né láta huglægt mat ráða því hvernig hið heilaga rit sé þýtt.
Fram kemur í sögu Da Vinci Lyklinum, eftir Dan Brown, að Jesús Kristur hafi eignast dóttur með Maríu Magdalenu, lærisveini sínum, og ættbogi þeirra lifi góðu lífi enn þann dag í dag.