Breska innanríkisráðuneytið rannsakar nú fréttir þess efnis, að hundruð erlendra sakamanna hafi verið látnir lausir af réttargeðdeildum án þess að gerðar hafi verið ráðstafanir til að vísa þeim úr landi. Að sögn blaðsins The Sun er lögregla að leita allt að 500 fyrrum sjúklinga, sem vistaðir voru á réttargeðdeildum, þar á meðal morðingja og barnaníðinga.
Fréttavefur BBC hefur eftir embættismanni í innanríkisráðuneytinu, að John Reid, innanríkisráðherra hafi fyrirskipað rannsókn á því hve margir útlendingar hafi verið vistaðir á breskum réttargeðdeildum.
Lögregla er jafnframt enn að leita að 1019 útlendingum, sem látnir voru lausir úr fangelsi án þess að vera vísað úr landi.