Óháð stofnun í Bretlandi hefur lagt fram tillögur um að leggja eigi niður Heathrow-flugvöll vestan við Lundúni og skipuleggja þess í stað nýjan alþjóðaflugvöll fyrir austan borgina. Segir stofnunin að hægt væri að reisa byggð fyrir 30 þúsund manns á núverandi flugvallarsvæði, sem sé skipulagslegt stórslys.
Stofnunin, The Town and County Planning Association, segir, að nýr flugvöllur fyrir austan Lundúni muni draga úr hávaða í borginni vegna yfirflugs flugvéla. Þá segir stofnunin að leggja eigi háhraðajárnbrautanet frá nýja flugvallarsvæðinu til að draga úr þörf á stuttum flugleiðum, sem hafi skaðleg umhverfisáhrif.
Stofnunin segir ekki raunhæft að flytja flugvöllinn á næsta áratug heldur verði flutningurinn að taka lengri tíma.
Í skýrslu stofnunarinnar segir, að 60 ára saga Heathrow-flugvallar sé saga fjölda smávægilegra skipulagsmistaka sem samanlagt séu eitt af verstu skipulagsslysum landsins.