Væntanlega verða fleiri menn handteknir í tengslum við meint áform um hryðjuverk á opinberum stöðum í Kanada, að því er yfirmaður kanadísku alríkislögreglunnar (RCMP) greindi frá í dag. Sautján manns voru handteknir vegna málsins á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags.
„Rannsókn þessa máls er ekki lokið,“ sagði Mike McDonell, aðstoðarframkvæmdastjóri RCMP, við kanadíska ríkisútvarpið í dag. „Við munum fylgja eftir öllum þráðum málsins allt til enda og allir sem aðstoðuðu við eða tóku þátt í þessum hryðjuverkum verða handteknir og leiddir fyrir rétt.“
Blaðið National Post greindi í dag frá því að hópurinn sem lagt hafi á ráðin um hryðjuverkin hafi komið upp æfingabúðum á afskekktum stað um 150 km norður af Toronto. Íbúar í grenndinni tjáðu blaðinu að fyrir um það bil einu ári hafi orðið þar vart við nokkra menn í feluklæðum við „hernaðaræfingar“, m.a. með sjálfvirkum skotvopnum.
Blaðið Globe and Mail segir að lögreglan hafi sjálf afhent hópnum sem handtekinn var þrjú tonn af ammóníumnítrati, algengum áburði sem nota má til sprengjugerðar, skömmu áður en handtökurnar áttu sér stað. Skömmu eftir að áburðurinn var afhentur hafi lögreglan hafið aðgerðir.