Bandaríska þingið hafnaði lagabreytingu um hjónabönd samkynhneigðra

Lagabreytingunni um hjónabönd samkynhneigðra mótmælt í Chicago
Lagabreytingunni um hjónabönd samkynhneigðra mótmælt í Chicago Reuters

Lagabreytingu sem bannað hefði giftingar samkynhneigðra var hafnað í bandaríska þinginu í dag. Ellefu atkvæði vantaði á þau sextíu sem þurfti svo kosið hefði verið um það hjá þinginu öllu. Höfnun lagabreytingarinnar þykir ekki koma á óvart, en stuðningsmenn hennar segja atkvæðagreiðsluna endurspegla aukinn stuðning við bannið. George Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur barist ötullega undanfarna daga fyrir því að lagabreytingin verði samþykkt.

David Vitter, einn þingmanna repúblikana sem stutt hefur bannið, segir að tilgangurinn með atkvæðagreiðslunni sé að byggja upp atkvæðafjöldann og að oft taki mörg ár að ná tveimur þriðju hlutum atkvæða.

Samkvæmt skoðanakönnun, sem sjónvarpsstöðin ABC gerði, skilgreinir meirihluti Bandaríkjamanna hjónabandið sem samband karls og konu líkt og lagabreytingin gerir ráð fyrir. En jafn stór meirihluti landsmanna er á móti því að ákvæði svo hljóðandi sé bætt við bandarísku stjórnarskránna.

Þingmaðurinn Edward Kennedy hefur hins vegar gagnrýnt tillöguna harðlega: „Forysta repúblikana er að biðja okkur um að eyða tíma í að bæta þröngsýni við stjórnarskránna,” segir Kennedy og bætir við að „með því að greiða atkvæði með banninu sé verið að greiða atkvæði gegn því að samkynhneigðir fái sanngjarna meðferð samkvæmt lögum”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert