Eima á milljónir hektólítra af frönsku og ítölsku víni vegna offramboðs

Reuters

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti í dag áætlun sem stöðva á offramleiðslu á frönskum og ítölskum vínum. Vín úr milljónum flaskna verður eimað og unnið úr því hreinn vínandi til annars brúks en drykkju. Framkvæmdastjórnin telur annars að gríðarlegt offramboð verði á víni með tilheyrandi verðhruni á því í Evrópu.

1,5 milljón hektólítra af frönsku borðvíni og jafnmikið magn af frönsku gæðavíni verður eimað, auk 2,5 milljónar hektólítra af ódýru, ítölsku víni og 100.000 lítrar af ítölsku gæðavíni. Mariann Fischer Boel, sem hefur landbúnaðarmál með höndum í stjórninni, segir of oft gripið til slíkra aðgerða. Vandamálið sé ekki leyst með þeim, en það er að of mikið er framleitt af víni miðað við eftirspurn í Evrópu. Við blasi heilu vínfljótin ef framhald verði á því.

Eimunin kostar ESB 131 milljón evra, þar sem greiða þarf framleiðendum fyrir vínið. 22. júní ætlar Boel að kynna aðgerðir sem leysa eiga vandann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert