Í bréfi sem Hillary Rodham Clinton sendi út nýverið með boði á fjáröflunarsamkomu er hvergi minnst á New York-ríki, sem hún er fulltrúi fyrir í öldungadeild Bandaríkjaþings, en aftur á mót eru Bandaríkin og bandaríska þjóðin nefnd átta sinnum á aðeins tveim blaðsíðum.
Þetta þykir mörgum benda sterklega til þess að hún ætli ekki að láta sér öldungadeildarsætið nægja, heldur muni hún sækjast eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í kosningunum þarnæsta ár.
Að undanförnu hefur Rodham Clinton flutt ávörp þar sem hún hefur talað um stefnu Bandaríkjanna á ýmsum sviðum; í efnahagsmálum, orkumálum og á föstudaginn fjallaði hún um vernd einkalífsins í ræðu sem hún hélt hjá Bandarísku stjórnarskrársamtökunum í Washington.
Brian Nick, talsmaður öldungadeildarnefndar repúblíkana, segir ekki fara á milli mála að Rodham Clinton hyggi á framboð 2008. Kosningafulltrúi hennar neitar því aftur á móti, og segir boðsbréfið hafa verið sent um allt land og þar sé fjallað um mál sem vitað sé að stuðningsmenn Rodham Clintons láti sig varða.
Skoðanakannanir hafa sýnt að hún nýtur mests fylgis hugsanlegra forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins.