Aung San Suu Kyi eyðir afmælisdeginum ein í stofufangelsi

Kvennahreyfingin í Búrma er meðal þeirra sem taka þátt í …
Kvennahreyfingin í Búrma er meðal þeirra sem taka þátt í mótmælum í dag. Reuters

Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, eyðir 61 árs afmælisdeginum ein í stofufangelsi, en hún hefur setið í stofufangelsi í rúm tíu ár af undanförnum sautján árum. Nýverið ákvað herforingjastjórnin í Búrma að hún skyldi sitja eitt ár til viðbótar í stofufangelsi.

Suu Kyi, sem er einn frægasti pólitíski fanginn í heiminum, hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína fyrir lýðræði í Búrma. Herstjórn hefur verið við völd í Búrma síðan 1962, og núverandi herforingjaráð komst til valda 1988 eftir að hafa brotið á bak aftur uppreisn lýðræðisafla.

Talið er að um þrjú hundruð stuðningsmenn Suu Kyi hafi safnast saman í morgun fyrir utan húsið þar sem hún er í haldi til að mótmæla fangelsun hennar og um leið að fagna afmæli hennar. Í dag verða haldnar samkomur í 25 löndum víða um heim þar sem fangelsun Suu Kyi er mótmælt.

Suu Kyi fær ekki að hafa nein tengsl við umheiminn önnur en þau, að læknir hennar fær að hitta hana einu sinni í mánuði og hún fær að hlusta á útvarp á stuttbylgju. Aðra fær hún ekki að hitta, þar á meðal syni sína tvo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert