Katharine Jefferts Schori, biskup biskupakirkjunnar í Nevadaumdæmi, var í gær valin yfirmaður bandarísku biskupakirkjunnar. Er þetta í fyrsta skipti sem kona gegnir þessu embætti innan bandarísku biskupakirkjunnar.
Jefferts Schori, sem er 52 ára að aldri, er með doktorsgráðu í haffræðum. Hún hefur barist fyrir réttindum samkynhneigðra innan biskupakirkjunnar og var einn helsti talsmaður þess að samkynhneigðir fái að gegna biskupsembætti innan kirkjunnar, en fyrsti samkynhneigði biskupinn var valinn til starfa fyrir þremur árum hjá bandarísku biskupakirkjunni.