Kvæntir menn á Indlandi hafa nú margir hverjir tekið upp á því að leigja út eiginkonur sínar vegna skorts á einhleypum konum í landinu. Til dæmis leigir vinnumaður á bóndabæ í Gujarat-fylki eiginkonu sína auðugum jarðeiganda fyrir 8.000 rúpíur á mánuði, eða 9.800 krónur, að því er dagblaðið Times í Indlandi heldur fram. Mánaðarlaun slíks vinnumanns nema aðeins rúmum 1.600 krónum.
Konan á að búa hjá leigjandanum og sinna þörfum hans, þ.á m. kynferðislegum. Kvennafæð er vaxandi vandi á Indlandi þar sem fjöldi foreldra lætur eyða fóstrum sem eru kvenkyns, þar sem betra þykir að eignast dreng en stúlku. Ástæða þess er sú að stúlkur verða að ganga í hjónaband og foreldrar þeirra að borga heimanmund með þeim samkvæmt fornri hefð. Það getur orðið foreldrum þung, fjárhagsleg byrði.
Heimanmundur hefur þó verið bannaður með lögum í Indlandi frá árinu 1961, en þó er sá siður enn við lýði að krefjast hans af foreldrum stúlkunnar. Kvennaskortur í Gujarat hefur einnig leitt til markaðar fyrir hjónabandsmiðlara sem hafa uppi á hentugri brúði gegn háu gjaldi. Sky fréttavefurinn segir frá þessu.