Stríð við Íran gæti þrefaldað olíuverð

Á hverjum degi flytja tankskip um 17 milljónir olíutunna í …
Á hverjum degi flytja tankskip um 17 milljónir olíutunna í gegnum Hormuz-sund fyrir olíuríki Mið-Austurlanda. Reuters

Olíuverð gæti þrefaldast ef afstaða Vesturveldanna gagnvart Íran myndi þróast út í átök, en þessu heldur ríkisstjórn Sádi-Arabíu fram. Sendiherra Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum, Turki Al-Faisal prins, sagði að slíkur atburður gæti orðið til þess að olíuverð myndi rjúka upp, en nú kostar tunnan um 70 dali.

Íran er annað mesta olíuframleiðsluríki í OPEC, Samtökum olíuútflutningsríkja, og sérfræðingar óttast að Íranar myndu hætta olíuútflutningi ef kjarnorkudeilan mun harðna enn frekar.

Írönsk stjórnvöld eru þessa dagana að fara yfir tillögur sem ætlað er að binda enda á deiluna.

„Hugmyndin um að einhver muni skjóta eldflaug á stöð einhversstaðar (í Íran) mun leiða til þess að verðið mun verða stjarnfræðilega hátt,“ sagði prinsinn á ráðstefnu sem Orkustofnun Bandaríkjanna stendur að.

Hann varaði við því að hverskonar átök sem tengjast Íran gætu haft áhrif á Hormuz-sund, en flest ríki í Mið-Austurlöndum flytja sína olíu þar í gegn.

Á hverjum degi flytja tankskip um 17 milljónir olíutunna í gegnum sundið samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaorkustofnuninni.

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur vísað því að bug að ráðist verði á Íran náist ekki samkomulag eftir diplómatískum leiðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert