Fleiri þúsundir stúlkna frá ríkjum í austanverðri Evrópu og Afríku eru þvingaðar til vændis í Bretlandi, margar hverjar aðeins 14 ára gamlar. Lögreglan þar í landi hefur nú í fyrsta sinn sagt frá því hversu margar stúlkur eru fluttar til Bretlands af mönnum sem þvinga þær til kynlífsiðkunar. Sumar hverjar eru neyddar af ofbeldishneigðum melludólgum til þess að hafa mök við allt að 40 karlmenn á degi hverjum.
Lögreglan í Bretlandi hefur bjargað 84 stúlkum úr slíkri ánauð undanfarna fjóra mánuði, en meðal þeirra var 14 ára stúlka. 232 voru handteknir og 134 birt ákæra. 12 börnum á aldrinum 14-17 ára var bjargað úr klóm melludólga.
Innanríkisráðherra Bretlands, Vernon Coaker, sagði við lok aðgerðarinnar að sérstakt lið lögreglumanna myndi halda áfram baráttunni og yrði skipað til frambúðar til að stöðva mansal. Lögreglan hefur beint þeim tilmælum til karlmanna sem leita til vændiskvenna að láta vita af því ef þeir héldu að þar væru konur nauðugar eða stúlkur undir lögaldri. Þeim er í staðinn heitið því að verða ekki lögsóttir. Fréttavefur Sky greinir frá þessu.