Viðbúnaðarstig hækkað vegna veikinda forseta Filippseyja

Gloria Macapagal Arroyo, forseti Filippseyja, var lögð inn á sjúkrahús í dag vegna verkja í kviðarholi. Starfsmannastjóri hennar segir veikindi hennar þó ekki líta út fyrir að vera alvarleg. Fyrr í dag var viðbúnaðarstig í landinu hækkað, fyrst vegna gruns um yfirvofandi sprengjutilræði og síðan enn frekar vegna veikinda Arroyo.

Arroyo var flutt á sjúkrahús eftir að hafa snætt á veitingastað með fjölskyldu sinni. Þá hefur áætlunum hennar fyrir morgundaginn verið aflýst en til stendur að hún leggi af stað í opinbera heimsókn til Ítalíu, Páfagarðs og Spánar á laugardag.

Arroyo hefur verið undir miklu álagi frá því hún tók við embætti í kjölfar „uppreisnar fólksins" í janúar árið 2001. Á þeim tíma hefur hún þurft að takast á við hryðjuverkaárásir, valdaránstilraunir og náttúruhamfarir auk þess sem hún hefur setið undir ásökunum um kosningasvindl og spillingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert