17 ára Breti hefur verið dæmdur til ævilangs fangelsis fyrir að stinga ungan mann til bana í fyrra. Hann þarf í það minnsta að sitja inni í 15 ár en gæti fengið lausn fyrr. Foreldrar fórnarlambsins hafa óskað þess að upptaka af morðinu, sem öryggismyndavélar náðu, verði birt almenningi til þess að fólk sjái hversu „hrottafengið og glórulaust“ morðið var.
Morðinginn, Michael Lynch, er tveggja barna faðir þrátt fyrir ungan aldur en var 16 ára þegar hann myrti manninn unga, Darren Pollen, sem var læknanemi. Lynch gekkst við því að hafa stungið Pollen þegar hann var úti að skemmta sér í bænum Romford sem er skammt frá Lundúnum. Pollen var tvítugur.
Tveir vitorðsmenn Lynch fengu fimm ára fangelsisdóm. Pollen var að bíða eftir því að vera sóttur þegar mennirnir gerðu árás á hann og vini hans að ástæðulausu. Foreldrar Pollen, Terry og Josie, hafa krafist þess að refsingar verði hertar hvað varðar hnífaburð í von um að það dragi úr hnífaárásum. Þeim hefur fjölgað til muna á undanförnum árum í Lundúnum og nágrenni. Sky fréttastöðin sagði frá þessu.