Auglýsingaherferð hefur verið hrint af stað í Afríkuríkinu Kamerún í von um að sá siður leggist af að „strauja“ brjóst stúlkna á gelgjuskeiði. Víða um landið er stundaður sá siður að lemja og hnoða brjóst ungra stúlkna með heitum hlutum í von um að þau hætti að stækka og jafnvel hverfi. Um 26% stúlkna á kynþroskaaldri hafa þurft að þola slíka meðferð í landinu af hálfu mæðra sinna, sem halda að þetta komi í veg fyrir að drengir og karlmenn hafi mök við stúlkurnar.
Oftast er ákveðinn viðarstautur notaður til verksins sem venjulega er þó notaður til að merja rótarhnýði í eldamennsku. Þá eru bananar einnig hitaðir og kókoshnetuskeljar. Á fréttavef BBC rifjar ein stúlka, Geraldin Sirri, upp reynslu sína af slíkri meðferð. „Móðir mín tók upp viðarstaut, hitaði hann í eldi og barði síðan brjóstin á mér með honum á meðan ég lá á bakinu. Hún tók síðan kókoshnetuskel, hitaði hana í eldi og straujaði brjóstin. Ég grét og skalf og vildi flýja en gat það ekki.“
Önnur kona segist hafa straujað sjálf á sér brjóstin til þess að komast hjá því að ganga barnung í hjónaband, eins og siður er í heimaþorpi hennar. Hún hafi viljað sækja skóla eins og aðrar stúlkur sem brjóst voru ekki farin að myndast á.
Nú hefur hópur táningsstúlkna tekið til sinna ráða, með fjárhagslegri aðstoð utanaðkomandi aðila, og hafið sjónvarpsherferð gegn þessum sið með auglýsingum. Þar eru mæður hvattar til þess að láta brjóst dætra sinna vaxa í friði, annað sé skaðlegt heilsu þeirra. Samkvæmt kamerúnskum lögfræðingi sem BBC ræddi við þá eru stúlkur verndaðar gegn slíku athæfi með lögum, þær þurfa aðeins að kæra það nógu snemma. Það getur varðað við allt að þriggja ára fangelsi að valda stúlku skaða með þessum hætti í Kamerún.