Öfuguggar handteknir í neðanjarðarlestum New York

Þekktasta kennileiti New York, Frelsisstyttan.
Þekktasta kennileiti New York, Frelsisstyttan. AP

Lögreglan í New York greip til þess ráðs að láta óeinkennisklædda lögreglumenn og -konur ferðast með neðanjarðarlestum borgarinnar í tvo daga til þess að góma menn með strípihneigð og þá sem káfa á kvenfólki í lestunum. 13 menn voru handteknir en þeir reyndu margir hverjir að káfa á óeinkennisklæddum lögreglukonum.

Aðgerð þessi hlaut nafnið „Operation Exposure“ eða „Afhjúpunaraðgerðin“ og fór fram í maí sl. Þar sem aðgerðin virðist hafa gefið góða raun, hefur verið ákveðið að halda slíku starfi áfram innan lögreglunnar.

Fjölmargar konur höfðu áður kvartað undan öfuguggum í lestunum og sumar hverjar gripið til sinna ráða. Sumar kvennanna tóku ljósmynd af mönnunum með farsímum og settu ljósmyndirnar á netið. Má þar nefna Thao Nguyen, 23 ára gamla konu og markaðsstýru, sem náði Dan nokkrum Hoyt á mynd þar sem hann beraði kynfæri sín, en Hoyt er veitingahúseigandi. Hoyt var handtekinn í kjölfarið og fékk tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm og var gert að leita sér hjálpar við strípihneigðinni.

Lögreglustjórinn í New York segist vonast til þess að fréttir af handtöku mannanna hafi fyrirbyggjandi áhrif, að öfuguggar hugsi sig tvisvar um áður en þeir káfi á konum eða fletti sig klæðum þar sem þær gætu verið lögreglukonur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert