Handtökuskipun gefin út á hendur fyrrum forseta Mexíkó

Dómari í Mexíkó hefur gefið út handtökuskipun á hendur Luis Echeverria, fyrrum forseta Mexíkó, vegna aðgerða hersins árið 1968 þegar skotið var á stúdenta sem komu saman til að mótmæla stjórn landsins, svokallað Tlatelolco-fjöldamorð, kennt við torgið sem mótmælin fóru fram á rétt áður en Ólympíuleikarnir hófust í Mexíkóborg. Talið er að fleiri en 30 hafi látið lífið og hefur tvívegis verið gerð tilraun til þess að fá Echeverria handtekinn fyrir þjóðarmorð, en hann hafði umsjón með þjóðaröryggismálum sem innanríkisráðherra þegar herinn skaut á stúdenta.

Echeverria var forseti Mexíkó frá 1970 til 1976, þegar svokallað óhreint stríð var háð gegn vinstrimönnum í landinu. Líklegt er talið að hann verði settur í stofufangelsi vegna aldurs, en hann er 84 ára og heilsuveill. Á morgun verður gengið til forsetakosninga í Mexíkó, þeirra fyrstu í sex ár.

PRI flokkurinn réð ríkjum í Mexíkó sjö áratugi þar á undan, en óvíst er hvaða áhrif handtaka Echeverria mun hafa á fylgi við frambjóðanda PRI til forseta, Roberto Madrazo. Hann er nú með þriðja mesta fylgi frambjóðenda miðað við niðurstöður skoðanakannana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert