Norður-Kóreumenn hafa skotið sjöundu tilraunaeldflauginni á loft, en þetta hefur japanska fréttastofan Kyodo eftir heimildarmönnum sínum innan japönsku ríkisstjórnarinnar. Skotið átti sér stað klukkan 17:22 að japönskum tíma, eða klukkan 8:22 að íslenskum.
Fréttir af þessu berast klukkustundum eftir að Norður-Kórea skaut að minnsta kosti sex tilraunaeldflaugum á loft, þ.á .m langdrægri Taepodong-2 eldflaug. Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt tilraunaskotin.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna munu halda neyðarfund að beiðni Japana til þess að ræða þróun mála.
Fram kemur í japönskum fjölmiðlum að norður-kóresk yfirvöld þrjóskist við og segi að málið snerti sjálfstjórnarmál þeirra.
Fréttaskýrendur segja að yfirvöld í Norður-Kóreu líti á þess sem leið til þess að fá athygli og leysa upp þá diplómatísku pattstöðu sem hefur ríkt í tengslum við viðræður um kjarnorkugetu þeirra.