Mótmæli gegn hátíð samkynhneigðra í Jerúsalem

Frá Hinsegin dögum í Reykjavík.
Frá Hinsegin dögum í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Bókstafstrúar gyðingar í Ísrael hafa hert róðurinn í andófi sínu gegn vikulangri hátíð sem samkynhneigðir hafa skipulagt í Jerúsalem í næstu viku. Bókstafstrúar gyðingarnir óttast að hátíðin muni saurga friðhelgi borgar sem þrenn trúarbrögð líta á sem helga borg.

Bókstafstrúar gyðingar hafa dreift dreifiblöðum um borgina þar sem þeim sem „drepur sódómista” er heitið 20 þúsund shekel sem samsvarar 350 þúsund íslenskum krónum. World Pride 2006 hátíðin mun fara fram dagana 6. til 12. ágúst í Jerúsalem. Síðast er slík hátíð var haldin í Róm fyrir sex árum síðan tók um hálf milljón manna þátt í hátíðahöldunum.

Í gær lögðu tveir trúarlegir stjórnmálaflokkar fram þingsályktunartillögu sem lagði bann á hátíðina en tillagan var felld með 26 atkvæða mun, 16 sátu hjá.

Ráðherrann sem fer með málefni Jerúsalem, Yaacov Ederi sagðist persónulega vera á móti hátíðinni en að það væri lögreglunnar að ákveða hvort leyfa ætti þau eður ei.

Það er ekki langt síðan að maður var stungin með hnífi af róttækum bókstafstrúar gyðingi á hinum árlegu Hinsegin dögum í Jerúsalem. Þess ber þó að geta að Hinsegin dagar í Tel Aviv hafa árlega verið haldnir án vandamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert