Höfuðborg Búlgaríu tekur þátt í forvarnarverkefni

Sofia, höfuðborg Búlgaríu, hefur ákveðið að taka þátt í forvarnaverkefninu „Ungmenni í Evrópu ― gegn fíkniefnum“ en Actavis er aðalstyrktaraðili verkefnisins.

Forvarnaverkefnið, sem á ensku nefnist „Youth in Europe“ og er unnið á vegum ECAD (European Cities against Drugs), er byggt á íslenskum rannsóknum sem miða að því að greina þætti sem eru líklegir til að koma í veg fyrir að ungt fólk ánetjist fíkniefnum, að því er segir í fréttatilkynningu frá Actavis.

Actavis styrkir verkefnið í fimm borgum Evrópu: Sofiu, St. Pétursborg, Vilnius, Belgrad og Istanbúl, auk þess að kosta rannsókna- og kynningarstarf á Íslandi. Í dag eru 13 borgir þátttakendur í verkefninu og búist við að fleiri bætist við á næstu mánuðum. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, er verndari verkefnisins.

Boyko Borissov, borgarstjóri Sofiu, Jónas Tryggvason, framkvæmdastjóri Actavis í Mið- og Austur-Evrópu og Asíu, og Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps verkefnisins, skrifuðu á dögunum undir samning um þátttöku Sofiu í verkefninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert