Líbanar krefjast vopnahlés

Reykur stígur upp af suðuhluta Beirút þar sem talið er …
Reykur stígur upp af suðuhluta Beirút þar sem talið er að neðanjarðarbyrgi Hizbollah hafi verið. Reuters

Líbanski forsætisráðherrann, Fouad Siniora, fór fram á að tafarlausu vopnahléi yrði komið á milli Ísraels og Hizbollah skæruliða, hann segir að verið sé að rífa Líbanon í tætlur. Ísraelar segja að þeir hafi sent 80 flugvélar í sprengjuleiðangra í Líbanon í morgun og að Ísraelsher berjist nú við skæruliða Hizbollah á tveimur stöðum fyrir innan landamæri Líbanons. Þrír hermenn hafa særst í átökunum í morgun.

Siniora sagði að ríflega 300 manns hefðu látist og að hálf milljón manna væri á vergangi eftir að árásir Ísraela hófust.

Í gærkvöldi sagði Ísrael að herþotur þeirra hefðu látið 23 tonn af sprengjum falla á neðanjarðarbyrgi undir mosku skammt sunnan við Beirút þar sem líklegt þótti að leiðtogar Hizbollah dveldust.

Fréttavefur BBC skýrði frá því að Hizbollah hefði sent frá sér þá tilkynningu að moskan væri í byggingu og að engan leiðtoga eða starfsmann Hizbollah hefði sakað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert