Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, varaði Ísraelsmenn við því í dag að þeir hefðu þrýst á „sinn eigin sjálfstortímingarhnapp” með aðgerðum sínum í Líbanon. Ahmadinejad sagði þetta í ræðu sem hann hélt á menntamálaráðstefnu í Íran í dag. Ísraelsmenn hafa sakað Írana um að eiga þátt í gíslatöku tveggja ísraelskra hermanna og að hafa séð Hizbollah hreyfingunni fyrir vopnum og fé.
Forsetinn útskýrði orð sín ekki frekar, en sagði einnig að þjóðir múslima auk annarra gætu einangrað Ísrael og stuðningsmenn þeirra.
Hann endurtók einnig orð sín um að Ísraelsmenn ættu að „pakka saman” og flytjast frá Mið-Austurlöndum. Sú yfirlýsing var víða fordæmd í fyrra, ráðlagði Ahmadinejad Ísraelsmönnum nú að fara áður en þeir „brenndust í þeim eldi sem þeir hefðu kveikt í Líbanon”. Þá neitaði forsetinn því að Íranar hefðu átt þátt í gíslatöku tveggja ísraelskra hermanna, sen varð til þess að Ísraelsmenn hófu árásir á Líbanon.
Íranar áttu þátt í stofnun Hizbollah hreyfingarinnar árið 1982, þeir neita því hins vegar að samtökin fái stuðning í mynd þjálfunar, fjár eða vopna.