Hugsanlegt er að olíuævintýri sé í uppsiglingu á Grænlandi en nýlegar kannanir á hafsvæðinu vestur af landinu benda til þess að þar geti verið jafn mikið af olíu og á öllum olíuvinnslusvæðum Noregs, Danmerkur og Bretlands. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Einnig var fjallað um málið í sjónvarpi í Danmörku í gær og voru staðhæfingarnar staðfestar af Jørgen Wæver Johansen, æðsta yfirmanni náttúruauðlinda innan grænlensku heimastjórnarinnar. Samningaviðræðum um hugsanlega nýtingu auðlindanna standa nú yfir á milli danskra og grænlenskra yfirvalda.