Sex hundruð farþegar þurftu að rýma jarðlestarvagna nærri Heathrow-flugvelli á háannatímanum fyrr í kvöld eftir að lestin ók á aurskriðu. Lestin var ofanjarðar og var stödd skammt frá Boston Manor jarðlestastöðinni sem er sex stöðvum frá Heathrow. Samkvæmt lögreglunni slasaðist enginn og lestin sem ekur eftir Picadilly línunni fór ekki út af sporinu.
Svo virðist sem þrjú til fjögur tonn af jarðvegi hafi runnið á teinana og fimmtán mínútum síðar tókst að koma öllum farþegunum 600 yfir í aðra lest á Boston Manor.