Samkvæmt nýrri könnun um hamingju hinna ýmsu þjóða þá lenda Íslendingar í fjórða sæti á eftir Austurríki og Sviss en frændur vorir í Danmörku teljast hamingjusamastir í heimi. í fimmta sæti eru íbúar á Bahamaeyjum. Könnunin er gerð við háskólann í Leicester í Englandi og er sú umfangsmesta sinnar tegundar. 80 þúsund manns frá 178 löndum tóku þátt og voru það vísindamenn frá Sameinuðu þjóðunum, Unesco, WHO, CIA og fleiri alþjóðlegum stofnunum sem stóðu að könnuninni.
Bandaríkin lentu í 23. sæti og Þýskaland í 35. sæti en England var enn neðar í 41. sæti Mestrar óhamingju gætir í Kongó, Zimbabwe og Burundi. Írak og Afganistan voru ekki með í þessari könnun.
Norðmenn lentu fremur neðarlega, í 19. sæti og eru óhamingjusamastir allra norðurlandanna. Finnar voru í 6. og Svíar í 7. sæti.
Ein af niðurstöðum könnunarinnar er að heilbrigði vegur þyngra á metunum hjá fólki en ríkidæmi og menntun þegar reiknisdæmi hamingjunnar er gert upp. 81% Breta telur til dæmis að ríkisstjórnin ætti að einbeita sér að því að gera fólk hamingjusamt fremur en ríkt. Nánar má lesa á norrænum fréttavefjum, til dæmis á berlingske.dk og borsen.dk. Könnunina sjálfa má skoða á tenglinum: Hamingjukönnunin