Yfirvöld í Mouding sýslu í suðvestur-Kína hafa ákveðið að lóga 50.546 hundum vegna hundaæðisfaraldurs, en þrír Kínverjar hafa nú látið lífið úr æðinu. Hundaæði er bráður veirusjúkdómur í heila og getur lagst á öll dýr með heitt blóð, að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands. Það er oftast banvænt en hægt að ráða við það með skjótri bólusetningu. Um 50.000 hundum hefur verið lógað á fimm dögum. Margir hundanna voru barðir til dauða með kylfum á götum úti og það fyrir augum eigenda sinna.
Aðrir hundaeigendur sáu sjálfir um að lóga dýrunum, eitruðu fyrir þeim eða drápu þá með rafstraumi. Eigandi fær greitt jafnvirði rúmlega 400 kr. í bætur fyrir hundsmissinn. Dýravernd þykir lítil í kína og eru þar engin lög gegn illri meðferð á dýrum. Fjögurra ára stúlka er meðal þeirra þriggja sem létust úr æðinu, en 360 hafa til viðbótar verið bitnir af hundum.
4.000 hundum sem höfðu verið bólusettir gegn veirunni var fargað ef ske kynni að bólusetningin hefði ekki virkað. Sóttvarnarlínur voru settar upp í sýslunni til að hindra að hundar kæmust út fyrir mörk hennar. BBC segir frá þessu.