Michele Alliot-Marie, varnarmálaráðherra Frakka segir að ef alþjóðlegt gæslulið í Líbanon eigi að verða skilvirkt verði það að hafa heimild til að beita vopnum. Alliot-Marie segir í viðtali við franska dagblaðið Le Monde að þörf sé á mjög stóru, og vel vopnuðu alþjóðlegu gæsluliði með vel skilgreindum markmiðum.
Þá gagnrýndi ráðherrann fyrri friðargæsluverkefni Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. UNIFIL liðið sem nú er í Líbanon, og sagði þau hafa verið of „tannlaus til að stemma stigu við ofbeldi”.
„Það er vegna þess að liðin hafa ekki leyfi til að beita vopnum sem friðargæslulið lenda ávallt í vandræðum”, segir Alliot-Marie í viðtalinu. Þá segir hún einnig að 10.000 manna lið, líkt og Kofi Annan, framkvæmdastjóri S.þ. hefur stungið upp á, yrði of fámennt. Segir í dagblaðinu að franskir hernaðarsérfræðingar áætli að þörf sé á fimmtán til tuttugu þúsund manna liði.
Frakkar bindast Líbönum sögulegum böndum, þeir réðu landinu frá lokum fyrri heimsstyrjaldar þar til Þjóðverjar hertóku Frakkland í þeirri seinni. Þeir hafa verið nefndir sem mögulegt forystuafl í alþjóðlegu friðargæsluliði í Líbanon.