Breskir ökumenn eru þeir taugatrekktustu í Evrópu, Belgar þeir afslöppuðustu í umferðinni og Frakkar eiga vinninginn þegar það kemur að vegabræði að því er segir í nýrri evrópskri könnun. Alls tóku 13.000 ökumenn, sem allir eru að sjálfsögðu með gilt ökuskírteini, þátt í könnuninni í 23 löndum.
Þá segir að dauðaslys á grískum vegum séu fimm sinnum algengari en á Bretlandi.
Þá eru breskir ökumenn þrisvar sinnum líklegri en aðrir Evrópumenn til þess að deyja í umferðarslysi á spænskum og portúgölskum vegum.
Breska RAC-stofnunin sem fæst við umferðarrannsóknir birti rannsóknina sem evrópska stofnunin Ungir ábyrgir ökumenn stóð að.
Þar segir m.a.:
Breskir ökumenn eru þeir taugatrekktustu í Evrópu, en 87% þeirra eru stundum afar pirraðir út í aðra ökumenn.
Belgískir ökumenn eru þeir afslöppuðustu, en 55% þeirra létu aksturslag annarra ökumanna fara í taugarnar á sér.
Sex af hverjum 10 frönskum ökumönnum viðurkenndu í könnuninni að þeir hafi hegðað sér með árásargjörnum hætti gagnvart öðrum ökumönnum.
Þá eru Þjóðverjar líklegastir til þess að blikka aðra bíla og keyra of nálægt þeirri bifreið sem er fyrir framan þá. Bretar halda sig hinsvegar við handabendingar. Grikkir þykja hinsvegar líklegastir evrópskra ökumanna til þess að gefa öðrum ökumönnum nokkur góð ráð.
Ítalar pirrast mest yfir því þegar þeir sjá aðra ökumenn nota farsímann sinn á meðan þeir keyra og Grikkir láta þá sem skipta um akrein á síðustu stundu pirra sig mest allra Evrópubúa.
Samkvæmt RAC-stofnuninni fara þrjár milljónir Breta til meginlandsins á bifreiðum sínum á hverju ári. Þá eru æ fleiri Bretar farnir að leigja bíla í þeim löndum sem þeir ferðast til.
Sé litið til allra Evrópuríkja þá eru bílar notaðir í 57,3% allra sumarleyfisferða á ári hverju.