Fuad Siniora, forsætisráðherra Líbanons, sagði í dag að 40 manns að minnsta kosti hefðu látið lífið í þorpinu Hula í suðurhluta Líbanon en Ísraelsmenn gerðu loftárásir á að minnsta kosti sex byggingar í þorpinu í dag. Harðar loftárásir hafa verið gerðar á Suður-Líbanon og suðurhluta Beirút í morgun. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og aðrir háttsettir ráðherrar, hittust í morgun til að ræða hvort herða ætti sóknina gegn Hizbollah-samtökunum í Líbanon enn frekar.
Fuad Siniora ávarpaði í morgun fund arabískra ráðherra í Berút og táraðist meðan á ræðunni stóð. Sagði hann að Líbanon mætti ekki verða vettvangur átaka og hernaðar.
Blaðið Haaretz hafði eftir ónafngreindum hershöfðingja, að Ísraelsmenn kunni að gera árásir á samgöngumannvirki eða stjórnarbyggingar í Líbanon í hefndarskyni fyrir flugskeytaárásir Hizbollah á Ísrael í gær en að minnsta kosti 15 Ísraelsmenn létu þá lífið.