Klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma tók vopnahlé gildi í Líbanon eftir miklar loftárásir á Líbanon í nótt. Bardagar hafa staðið í 34 daga og talið er að um 900 manns hafi látið lífið í bardögunum. Svo virðist sem báðir aðilar hyggist halda vopnahléið, Ísraelskar orrustuþotur sáust ekki á himni skömmu eftir að það tók gildi en óvíst er hvort Hizbollah skæruliðar láti vopnin liggja.
Í dag sagði talsmaður Hizbollah, Hussein Rahal í samtali við AP að leiðtogi skæruliðanna Hassan Nasrallah hafi sagt að hópurinn myndi standa við vopnahlé en myndu halda áfram bardögum svo lengi sem ísraelskir hermenn væru til staðar í Líbanon.
Í gærkvöldi var ríkisstjórnarfundi frestað í Líbanon, þar átti að ræða framkvæmdaáætlun í tengslum við vopnahléið. Meðal annars átti að ræða um þá 15 þúsund hermenn sem senda á til Suður-Líbanon. fundinum var frestað sökum þess að ráðherrar Hizbollah neituðu að samþykkja þann hluta vopnahlésins sem segir að skæruliðar Hizbollah verði að leggja niður og afhenda vopn sín.
Sjónvarpsstöðvar í Líbanon sem hafa sýnt stöðugar sprengingar, reyk og eyðileggingu sýndu í morgun auðan himinn og kyrrt landslag.
Að sögn AP fréttastofunnar voru fáir á ferli í Suður-Líbanon, fæstir treysta að vopnahléið haldi en að sögn var umferðin meiri í Beirút og öðrum stærri borgum.