Ísraelar segja að Ítalir verði að leika lykilhlutverk í friðargæsluliði SÞ

Ehud Olmert ræddi við Romano Prodi í síma og óskaði …
Ehud Olmert ræddi við Romano Prodi í síma og óskaði eftir því að Ítalir sæju um að gæta landamæranna milli Sýrlands og Líbanons. AP

Ísraelar báðu Ítali í dag um að taka að sér eftirlit við landamæri Sýrlands og Líbanons. Þá báðu Ísraelar Ítali um að þeir myndu leika lykilhlutverk í hinu fjölþjóðlega friðargæsluliði sem verður komið fyrir í Suður-Líbanon.

„Það er mikilvægt að fjölþjóðaliðið verði komið sem fyrst og að Ítalir séu mikilvægur hluti af því,“ sagði Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, í samtali sem hann átti við ítalska starfsbróður sinn, Romano Prodi, í síma.

Hann bað Prodi um að útvega ítalska liðssveit sem myndi hafa eftirlit með landamærastöðvum milli Sýrlands og Líbanons, en þetta kemur fram í yfirlýsingu sem ríkisstjórn Ísraels hefur sent frá sér.

„Ísrael lítur svo á að þátttaka ítalska hersins sé grundvallarþáttur í því að ályktun 1701 í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna verði beitt og þetta samstarf mun stuðla að friði og stöðugleika í Miðausturlöndum,“ sagði Olmert.

Prodi svaraði því til að hann hygðist senda liðssveit af skynsamlegri stærð sem mun geta framfylgt sínum verkefnum og að hann muni senda málið til þingsins til umfjöllunar.

Ríki Evrópusambandsins hafa beðið með að bjóða fram hermenn sem yrðu viðbót við þær hersveitir SÞ sem þegar eru staddar í Líbanon. Samkvæmt ályktun 1701 í öryggisráði SÞ er kallað eftir 15.000 manna herliði í landinu. Ríki ESB hafa haft af því áhyggjur hvernig stríðsátökum sé háttað við hin hviklyndu landamæri Ísraels og Líbanons.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert