Hertar öryggisreglur á breskum flugvöllum hafa haft „skelfilegar afleiðingar" í för með sér fyrir tónlistarmenn, að sögn bandalags breskra tónlistarmanna, Musician's Union. Tónlistarmenn hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna þess að þeir geta ekki tekið hljóðfæri sín með sér um borð sem handfarangur, en mörg þeirra eru of viðkvæm til þess að fara í farangursrými flugvélar.
Breska samgönguráðuneytið segir öryggisreglurnar verða með þessu móti svo lengi sem þörf er á, þ.e. að farþegar megi vera með einn hlut í handfarangri sem ekki sé stærri en fartölvutaska. Flest hljóðfæri verður því að hafa í farangursrými.
Fiðluleikararnir Marc Ramirez og Olivia Hajioff sögðu í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að þeir gætu ekki hugsað sér, líkt og flestir aðrir fiðluleikarar, að setja hljóðfæri sín í farangursgeymslu flugvélar. „Fiðlurnar okkar eru afar dýrmætar og viðkvæmar," sagði Hajioff. „Það kemur ekki til greina að við, eða nokkur annar tónlistarmaður sem tekur starf sitt alvarlega setji fiðlur í farangursrýmið".
Bandalag breskra tónlistarmanna á nú í viðræðum við íþrótta- og menningarmálaráðuneyti Bretlands um þetta en þykir miða hægt. Nokkrir tónlistarmenn sem aðild eiga að bandalaginu verða líklega lögsóttir fyrir að hafa ekki haldið tónleika í löndum utan Bretlands, en þeir tóku ekki þá áhættu að geyma viðkvæm hljóðfæri í farangursrými flugvéla.
Hajihoff segir afar einfalt að gegnumlýsa hljóðfærin og því ætti þetta ekki að vera öryggisvandamál. Á fréttavef BBC má lesa lýsingar fjölda tónlistarmanna á reynslu þeirra af þessu og skemmdum sem hljóðfæri þeirra urðu fyrir við flutninga.