Miklar vangaveltur í Noregi um hvernig Munch-verkin fundust

Miklar vangaveltur eru í Noregi um þá atburðarás, sem leiddi til þess að tvö af meistaraverkum norska málarans Edvards Munchs komu í leitirnar í gær en þeim var rænt úr Munch-safninu í Ósló fyrir tveimur árum. Lögreglan hefur ekki viljað veita upplýsingar um hvernig hún hafði upp á málverkunum en segist að ekkert lausnargjald hafi verið greitt fyrir þau. Fjölmiðlar hafa gert því skóna, að málverkaránið tengist bankaráni, sem framið var í Stafangri veturinn 2004 og höfuðpaur bankaránsins kunni að hafa veitt upplýsingar um hvar málverkin væri að finna gegn því að fá betri aðbúnað í fangelsi.

Morten Hojem Ervik, talsmaður lögreglunnar í Ósló, sagði við AFP að engar upplýsingar yrði veittar um hvernig málverkin Ópið og Madonna komu í leitirnar. Lögregla hefur áður sagt að ekki hafi verið greitt lausnargjald fyrir verkin en engin hafi verið handtekinn í tengslum við málverkafundinn. Ervik staðfesti hins vegar að verkin hefðu verið í Noregi.

Miklar vangaveltur eru nú um hvar verkin hafi verið geymd, hvernig þeim hafi verið skilað og hvort lögregla hafi fengið nýjar upplýsingar. Norskir fjölmiðlar hafa lengi verið með getgátur um, að forsprakkar bankaránsins í Stafangri, þar sem lögreglumaður lét lífið, hafi fyrirskipað málverkaránið til að reyna að draga athygli lögreglu frá rannsókn bankaránsins.

Í morgun kom sú kenning fram í sumum fjölmiðlum, að David Toska, sem fyrr á þessu ári var dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir að hafa skipulagt bankaránið, hafi veitt upplýsingar um málverkin til að tryggja sér betri aðstæður í fangelsi. Áfrýjunardómstóll mun á mánudag taka áfrýjun Toska fyrir.

Norskir fjölmiðlar hafa sagt að Toska hafi beðið vin sinn, sem nú er látinn, að skipuleggja ránið á Munch-verkunum til að tryggja, að lögreglan hefði í nógu að snúast.

Á síðasta ári fannst fé úr bankaráninu á heimili eins þeirra, sem grunaðir eru um málverkaránið.

Blaðið VG sagði í dag að lögregla hefði strax séð að margt var líkt með ránunum tveimur. Þannig hefðu ræningjarnir m.a. notað sömu tegund af hönskum í báðum ránunum.

Málverkin tvö eru sögð í þokkalegu ástandi þótt tvær rifur séu á öðru þeirra og hitt hafi orðið fyrir höggi. Forverðir munu rannsaka verkin til að kanna hvort málningin hafi skemmst vegna umhverfisáhrifa.

Málverkunum var rænt í ágúst 2004 þegar tveir grímuklæddir menn ruddust inn í Munch-safnið í Ósló og ógnuðu starfsmanni með byssu. Þeir rifu málverkin af veggjunum, hlupu með þau út og lögðu á flótta í stolnum bíl.

Þrír menn voru í maí dæmdir í 4-8 ára fangelsi fyrir aðild að ráninu og einnig dæmdir til að greiða norska ríkinu jafnvirði 7,5 milljarða íslenskra króna í bætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert