Súdanstjórn segir friðargæsluliða verða að hverfa frá Darfur

Stuðningsmenn Súdanstjórnar hrópa slagorð gegn SÞ á mótmælafundi í Khartoum.
Stuðningsmenn Súdanstjórnar hrópa slagorð gegn SÞ á mótmælafundi í Khartoum. Reuters

Stjórnvöld í Súdan hafa tilkynnt Afríkusambandinu að friðargæsluliðar þess verði að hverfa á brott frá Darfur-héraði fyrir lok mánaðarins. Segir utanríkisráðuneyti Súdans að sambandið hafi engan rétt til að framselja friðargæsluumboðið til Sameinuðu þjóðanna eða einhverra annarra.

Súdönsk stjórnvöld hafa þegar hafnað ályktun sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í síðustu viku, þess efnis að rúmlega 20.000 friðargæsluliðar SÞ verði sendir til Darfur til að taka við af þeim sjö þúsund gæsluliðum Afríkusambandsins sem þar hafa átt undir högg að sækja.

„Afríkusambandið hefur lýst því yfir að það geti ekki verið áfram í Darfur, þannig að geti það ekki lokið verkefni sínu fyrir 30. september verða [friðargæsluliðar þess] að hverfa á brott fyrir þann dag,“ sagði talsmaður súdanska utanríkisráðuneytisins. „Jafnframt hefur [Afríkusambandið] engan rétt til að framselja umboð sitt [til friðargæslu í Darfur] til Sameinuðu þjóðanna eða annarra aðila. Þann rétt hefur enginn nema súdönsk stjórnvöld.“

Styrjöld og hungursneyð í Darfur-héraði hefur undanfarið þrjú og hálft ár kostað allt að 300.000 mannslíf, og 2,5 milljónir manna hafa orðið að flýja heimkynni sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert