Færeysk flugvél þurfti aftur að lenda í Björgvin

Flugvél Færeyska flugfélagsins Atlantic Airways, sem gat ekki lent í Vogum í Færeyjum í síðustu viku vegna bilunar í lendingarbúnaði, þurfti aftur frá að hverfa í gær þegar hún átti að lenda í Færeyjum. Eins og í fyrra skiptið sl. laugardag var flugvélinni snúið til Björgvinjar þar sem hún lenti heilu og höldnu.

Magni Arge, talsmaður flugfélagsins, segir að viðgerð á vélinni hafi greinilega ekki tekist vel því sama bilun hafi komið upp. Svonefndir flapsar, sem eiga að draga úr ferð flugvélarinnar fyrir lendingu, fóru ekki niður og því gat vélin ekki hægt nægilega á sér til að óhætt væri að lenda í Vogum. 77 farþegar voru í flugvélinni í gær.

Magni Arge segir að flugvélin verði nú send í verksmiðjuskoðun í Svíþjóð og yfirfarin vandlega.

Á laugardag voru fjórir Íslendingar meðal farþega í flugvélinni þegar hún þurfti að fara til Björgvinjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert