Abdallah S. Jum'ah, forstjóri Aramco, arabíska ríkisolíufélagsins segir heiminn enn aðeins hafa nýtt um 18% olíulinda heimsins og að ekki sé hætta á að lindirnar verði uppurnar fyrr en eftir 140 ár. Jum’ah sagði þetta á fundi OPEC, samtökum olíuútflutningsríkja. Segist hann telja að allt að 4.500 milljarðar tunna sem hægt sé að vinna, séu enn í jörðu.
Margir sérfræðingar telja að olíubirgðir heimsins séu a.m.k. 3.000 milljarðar tunna, en benda á að ef notkunin aukist um 2% á ári þá muni heimurinn hafa notað alla vinnanlega olíu um árið 2070. Rex W. Tillerson, stjórnarformaður bandaríska olíurisans Exxon sagðist á fundinum telja að eftirspurn muni aukast um 50% næstu tíu ár, og ef þeirri eftirspurn verði ekki svarað muni hagvöxtur í heiminum stöðvast.
Samtökin, sem telja 11 ríki, samþykktu fyrr í vikunni að halda áfram að framleiða 28 milljónir tunna á dag, en jafnframt að fylgst yrði náið með olíuverði með það í huga að minnka framleiðslu fyrir lok þessa árs. Hráolíuverð hefur lækkað hratt frá því í júlí, þegar það náði sögulegu hámarki. Sérfræðingar segja nægt framboð og góðar fréttir í heimsmálum, á borð við vopnahléið í Líbanon hafi stuðlað að lægra verði.
Jum’ah skoraði á rannsóknaraðila að finna 1.000 milljarða tunna á næstu 25 árum og sagði að ný tækni og hærra verð gerði þetta mögulegt. Benti hann á að nú þegar væri borað niður á allt að 10.000 feta dýpi í Mexíkóflóa, en talið er að í lindum sem þar fundust nýlega séu allt að 15 milljarðar tunna.