Persson baðst lausnar og borgaraflokkarnir hefja stjórnarmyndun

Göran Persson afhendir Björn von Sydow lausnarbeiðni sína í dag.
Göran Persson afhendir Björn von Sydow lausnarbeiðni sína í dag. AP

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, afhenti í dag Björn von Sydow, forseta sænska þingsins, bréf þar sem hann baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt en Jafnaðarmannaflokkurinn og stuðningsflokkar hans tveir misstu þingmeirihluta sinn í þingkosningum í gær. Borgaraflokkarnir svonefndu hófu í dag stjórnarmyndunarviðræður undir stjórn Fredriks Reinfeldts, leiðtoga Hægriflokksins, sem hefur lofað að mynda ríkisstjórn í byrjun október en ríkisstjórn jafnaðarmanna starfar áfram þangað til.

Persson lýsti því yfir í gærkvöldi, að hann ætlaði að hætta sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins á aukaþingi í mars, en í dag sagðist hann ætla að sitja á sænska þinginu fram að því. Persson sagðist einnig ekki ætla að setjast í helgan stein þegar hann hættir á þingi.

Reinfeld átti í dag fund með Maud Olofsson, leiðtoga Miðflokksins, Lars Leijonborg, leiðtoga Þjóðarflokksins og Göran Hägglund, leiðtoga Kristilega demókrataflokksins, um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Sögðu þau að fyrsta verk stjórnarinnar yrði að leggja grunn að því að staðið verði við kosningaloforð um fjölgun starfa, skattalækkanir og einföldun á því regluverki, sem atvinnurekendur þurfa að starfa eftir.

Fulltrúar samtaka sænska atvinnulífsins gengu í dag á fund væntanlegs forsætisráðherra til að óska honum til hamingju en leggja jafnframt áherslu á að umbótum á vinnumarkaði verði flýtt.

Fréttaskýrendur segja, að mikið sé undir því komið, að flokkarnir fjórir gangi í takt í ríkisstjórninni, ella verði erfitt að standa við kosningaloforðin. Enn er ekki ljóst hverjir munu setjast í helstu ráðherrastóla að forsætisráðherrastólnum undanskildum. Sænskir fjölmiðlar gera því í dag skóna, að Leijonborg verði utanríkisráðherra, Olofsson verði umhverfisráðherra og Hägglind annað hvort fjármálaráðherra eða félagsmálaráðherra.

Þá eru sænskir fjölmiðlar í dag almennt sammála um að ástæðurnar fyrir því að Jafnaðarmannaflokkurinn tapaði kosningunum í gær séu þær helstar, að kjósendur hafi verið orðnir þreyttir á Persson, sem verið hefur forsætisráðherra Svíþjóðar í 10 ár, flokkurinn hafi vanmetið óskir kjósenda um að fjölga störfum og loks að mið- og hægriflokkarnir fjórir hafi náð vel saman í kosningabaráttunni þar sem þeir lögðu áherslu á bandalag sitt. Þannig hafi borgaraflokkarnir orðið fýsilegri kostur en bandalag flokkanna þriggja á vinstri vængnum.

Hafnar eru umræður um hver verði eftirmaður Perssons í leiðtogaembætti jafnaðarmanna. Framámenn í Jafnaðarmannaflokknum hafa sagt, að þeir vilji gjarnan fá konu í leiðtogaembættið og hafa þær Margot Wallström, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Wanja Lundby-Wedin, formaður sænska alþýðusambandsins og Mona Sahlin, sem eitt sinn var varaformaður flokksins, m.a. verið nefndar.

Leiðtogar borgaraflokkanna fjögurra: Göran Hägglund, Maud Olofsson, Lars Leijonborg og …
Leiðtogar borgaraflokkanna fjögurra: Göran Hägglund, Maud Olofsson, Lars Leijonborg og Fredrik Reinfeldt. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert